ÍBÚÐ Í MIÐBÆNUM
Íbúð á efstu hæð í þriggja hæða húsi
Verkefnið hófst þegar húsið var á byggingarstigi og fólst í hönnun á innréttingum og í því að velja efni og áferð.
Sérstaða íbúðarinnar er há lofthæð í stofu og eldhúsi auk þess sem innveggir eru úr sjónsteypu.
Flestir sjónsteyptu veggirnir fengu að halda sér, gólfið er flotað og slípað og krossviður í loftklæðningu, innréttingum og hurðum gefur rýminu hlýleika.
Eldhúsinnrétting hafði þegar verið valin en hönnuður aðlagaði hana að rýminu og hannaði til viðbótar veggskáp með rennihurðum og vínrekka yfir ísskáp.
Veggskápur og vínrekki eru úr sprautulökkuðu svörtu mdf og klæddir að innan með birkikrossviði.
Veggir í baðherbergjum eru úr furu sem hefur verið brennd. Þessi meðhöndlun sem er löng hefð fyrir í Japan og kallast Shou Sugi Ban, felst í því að brenna við og nota í klæðningar. Við brennsluna myndast bakteríuvörn á yfirborði viðarins, hann verður einnig rakaþolinn og hentar því vel í votrými.