Brynja Þóra Guðnaddóttir, MA hönnun. Anja Kapscutz, BA grafísk hönnun. Auður Inez Sellgren, BA vöruhönnun. Helga Birgisdóttir, BA vöruhönnun. Heiðar Samúelsson, BA arkitektúr. Hjalti Guðlaugsson, BA arkitektúr. Jón Pétur Þorsteinsson, BA arkitektúr. Susanne Fellner, BA grafísk hönnun.
„(VIð Íslendingar) trónum á toppi allra þjóða yfir neyslufrekustu þjóðirnar.“
Sigurður Eyberg Jóhannesson, umhverfis- og auðlindafræðingur.
Í meistaranámi mínu í LHÍ fengu nemar á meistarastigi úthlutað því verkefni að móta umgjörð um samstarf á milli MA og BA nema í hönnun og leiða verkefnið. Viðfangsefnið var frjálst en átti að tengjast vandamáli sem við stöndum frammi fyrir í okkar samfélagi.
Ég ákvað að taka fyrir tengsl okkar við fæðuna, grunnundirstöðu mannlegrar tilvistar.
Við erum í sífellt minni tengslum við þessa mikilvægu undirstöðu, sem veldur firringu og ýtir undir neysluhyggju.
Hvernig getum við snúið þróuninni við og grænkað hugann?
Verkefnið var valið í bókina Developing Citizen Designers, ritstjóri Elizabeth Resnick (útg. Bloomsbury).
Við heimsóttum fyrirtæki og fengum til okkar fyrirlesara sem eru talsmenn þess að við hægjum á og tengjumst betur nærumhverfi okkar.
Við hittum Gunnar á Dill en þar nota þeir eingöngu staðbundin hráefni, tína grænmeti og blóm á leið í vinnuna, sem eru á matseðlinum og sækja saltið sitt á ákveðinn stað þar sem straumar eru hagstæðir.
Við heimsóttum Skaftholt í Gnúpverjahreppi en þar fer fram biodynamic ræktun, framleiðsla osta og kjöts og gerilsneyðing mjólkur. Þar er rekið meðferðarheimili þar sem búa um 20-30 manns sem vinna störf í návígi við náttúruna og eru sjálfum sér nægir með allar búsafurðir.
Það var apríl og gróðurinn virtist vera í algjörum dvala. Það kom okkur því á óvart að finna plöntur, innan um visinn gróðurinn sem voru að vakna til lífsins. Þetta eru plöntur sem eru þekktar fyrir lækningarmátt sinn og eru enn partur af matarmenningu sumra þjóða. VIð ákváðum að að gera matartilraunir með illgresi sem væri að finna í borginni. Með hverjum deginum bættust nýjar plöntur við flóruna og það var dásamlegt að vera svona innstilltur inn á gróðurinn á þessum fyrstu vordögum.
Fíflar eru okkar staðbundna ofurfæða. Þeir vaxa stjórnlaust um víðan völl og má nýta bæði blöðin, blómin og rótina í matseldina. Blöðin eru mildust á vorin áður en blómin myndast og eru mjög góð í salat.
Við útfærðum ferðaeldhús og matreiddum tómata-njólasúpu, njólapestó og njólasnakk fyrir gangandi vegfarendur.